Mánudagur 15. desember Týnd börn, stjórnmál, hávaði, sjálfsvíg og tónlist Jón K. Jacobsen, faðir drengsins sem dó á Stuðlum, ræðir við Björn Þorláks um börnin sem kerfið virðist hunsa. Tilefni viðtalsins er sláandi viðtal við mæðgin í síðustu viku hér á Samstöðinni um fíkn, geð, úrræði og úrræðaleysi. Hann ræðir dapurleg örlög margra barna og ungmenna sem eru vistuð á Stuðlum og meðferðarúrræðið Yes We Can. Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðingur ræðir stöðu stjórnar og minnihluta sem og framboð Sönnu og borgarmálin. Málþóf ber einnig á góma. Björn Þorláks ræðir við Ólaf. Vinnuaðstæður í leikskólum eru mjög mismunandi og hljóðvist barna eitt þeirra atriða sem virðast í misgóðu lagi. Fyrir skemmstu voru veitt íslensku hljóðvistarverðlaunin í flokki leikskóla. Leikskólinn Aldan á Hvolsvelli vann fyrstu verðlaun. Magnús Skúlason formaður dómnefndar og Kristín Ómarsdóttir formaður Íslenska hljóðvistarfélagsins, sem einnig var hljóðhönnuður Öldunnar ræða við Björn Þorláksson um hljóðið, fegurðina og fleira í skipulagsmálum. Endurflutningur tveggja viðtala verður í þættinum. Gunnar Smári ræðir við fjóra karla af mismunandi kynslóðum, Anton Ísak Óskarsson, Ármann Örn Bjarnason, Baldvin Frederiksen og Bjarna Karlsson, um sjálfsvíg og áhrif þeirra á aðstandendur. Hvernig glíma karlar við sorg og dauða? Og við spyrjum: Hvað var í gangi í Þingeyjarsýslunni til forna þegar hópur karla tók það upp hjá sér nánast upp úr engu að spila á fiðlu líkt og enginn væri morgundagurinn? Herdís Anna Jónsdóttir, víóluleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands ræðir það dularfulla mál.