Þriðjudagur 16. desember Veður, hægribylgja, loftslag, áföll og cóvid Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur rekur hamfaraveðrið í snjóflóðunum í Súðavík og hvort veðurfræðingar hefðu getað gert betur. Þá spáir Einar ítarlega um jólaveður landsmanna, ekki síst með liti til færðar um vegi landsins og fer yfir árið 2025 veðurfarslega, innanlands sem utan. Björn Þorláks ræðir við hann. Eiríkur Bergmann prófessor ræðir við Gunnar Smára um sýn þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna á Evrópu, von Trump-stjórnarinnar um uppgang þjóðernisflokka og um góða siglingu Miðflokksins í könnunum. Ungir umhverfissinnar gera upp árið 2025. Þær Þorgerður María Þorbjarnardóttir, Sigrún Perla Gísladóttir og Ragnhildur Katla Jónsdóttir lýsa bakslagi í málaflokknum en ræða einnig nýja möguleika til bjargar heiminum. Björn Þorláks ræðir við þær. Vigfús Bjarni Albertsson fyrrum sjúkrahúsprestur ræðir við Gunnar Smára um lífið, dauðann og lífsglímuna. „Þú verður reiður, þú grenjar út af engu. Þú ert annar Gunni í dag en í gær.” 24. febrúar síðastliðinn ræddi Björn Þorláks við Gunnar Svanbergsson sjúkraþjálfara sem lenti í langtímacovid og allt breyttist. Boðskapur viðtalsins lifir enn og við endurflytjum það nú á aðventu.